Löndin
Flest lönd gera kröfu um það að kjörforeldrar ferðist sjálfir til að sækja börn sín. Íslensk ættleiðing er þeim þá innan handar við undirbúning ferðarinnar, bendir á hótel og hefur bæklinga með ýmsum leiðbeiningum.
Stundum fara fleiri umsækjendur saman til ættleiðingar-landsins, sérstaklega til Kína. Séu umsækjendur ekki ferðavanir geta þeir tekið með sér ættingja eða vin til aðstoðar, en það eykur kostnaðinn. Gott er að nota biðtímann til að kynna sér aðstæður í ættleiðingarlandinu og etv til að auka færni sína í ensku eða læra svolítið í tungumáli landsins.
Kjörforeldrar þurfa að gæta þess að fara í bólusetningar og hafa góðar tryggingar í ferðinni.
Uppgefinn kostnaður er heildarkostnaður vegna ættleiðing-arinnar, innlendur kostnaður (biðlistagjald, vottorð, þýðingar, stimplanir) ásamt erlendum kostnaði, þ.e. greiðslum í fæðingarlandi barnsins svo sem uppihald barnsins, læknis- og lögfræðikostnaði ásamt öllum ferðakostnaði beggja foreldranna. Gengisbreytingar hafa mikil áhrif á kostnaðinn.
Erlend yfirvöld gera alltaf kröfu um að ættleiðendur geri skýrslur eftir að heim er komið- svokallaðar "follow up reports" um aðlögun barna sinna, þroska þeirra og daglegt líf. Nauðsynlegt er að fólk standi við skuldbindingar sínar gagnvart stjórnvöldum, annars er hætta á að ættleiðingar til Íslands verði stöðvaðar. Fjöldi skýrslna er mismunandi eftir löndum.
Flest undanfarin ár hafa umsóknir verið um 35 á ári og er hægt að taka við fleiri umsóknum frá hjónum.
Í dag hefur Íslensk ættleiðing milligöngu um ættleiðingar barna frá eftirtöldum löndum:
Indlandi, Kína, Kólombíu, Tékklandi og Tælandi.